Viðskipti innlent

Hlutabréf í FL Group lækkuðu um 5%

Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri FL Group, sem meðal annars á Flugleiðir og Icelandair, sagði starfi sínu lausu í gærkvöldi, að því er netfréttaritið Travel People greinir frá í morgun. Aðrar heimildir fréttastofunu Stöðvar 2 og Bylgjunnar herma hins vegar að hún sé ekki formlega hætt en að það standi allt eins til, en ekki næst í talsmenn félagsins. Það liggur þó fyrir að Ragnhildur verður ekki við á skrifstofu sinni í höfuðstöðvum FL Group í dag. Að sögn Travel People er ástæðan sögð óánægja hennar með fyrirhuguð kaup FL Group á danska flugfélaginu Sterling og þá sérstaklega að FL Group ætli að greiða allt of hátt verð fyrir það. Travel People segir að talað sé um á fimmtánda milljarð íslenskra króna fyrir Sterling og Mearsk sameinuð í einum pakka. Jafnframt greinir fréttaritið frá frá því að Hannes Smárason, stjórnarformaður FL Group og forgöngumaðaur um kaupin á Sterling, muni að líkindum setjast í forstjórastólinn og Skarphéðinn Berg Steinarsson verði stjórnarformaður í hans stað. Loks segir Travel People að greint verði frá kaupunun á Sterling í kauphöllum í Danmörku og á Íslandi á morgun. Ekki hefur náðst í Ragnhildi Geirsdóttur í dag og Hannes Smárason, Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi og Skarphéðinn Berg Steinarsson stjórnarmaður hafa ekki svarað skilaboðum. Hlutabréf í FL Group hafa lækkað um rösklega fimm prósent í Kauphöllinni í morgun.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×