Viðskipti innlent

FL Group að kaupa Sterling

Viðræður um kaup FL Group á norræna lággjaldaflugfélaginu Sterling, sem er í eigu fjárfestingafélagsins Fons eru nú á lokastigi og er búist við að tilkynnt verði um kaupin seinna í dag. Fjárfestingafélagið Fons, sem er í eigu þeirra Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, keypti danska flugfélagið Sterling í mars síðastliðnum á fjóra milljarða íslenskra króna. Þá gekk félagið frá kaupum á danska flugfélaginu Maersk Air í júní sem síðar var sameinað Sterling. Samkvæmt heimildum fréttastofu, mun FL Group tilkynna um kaup á Sterling síðar í dag. Sterling verður þó áfram rekið sem sjálfstætt flugfélag en forstjóri SAS sem Icelandair hefur átt samstarf við í áraraðir, hefur sagt að verði Icelandair og Sterling sameinuð, muni SAS slíta samstarfi við félagið. Verði félögin tvö hins vegar rekin í sitthvoru lagi, muni SAS halda samstarfi við Icelandair áfram og jafnvel verði það aukið. Hann segir félögin tvö hafa rætt saman í yfir fimmtíu ár og vonast hann til að þannig verði það áfram.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×