Erlent

Ný prinsessa á Spáni

Spænsk prinsessa kom í heiminn í nótt sem leið. Hún heitir Leonor og er dóttir Felipe, krónprins Spánverja og eiginkonu hans til eins og hálfs árs, Letiziu Ortiz. Móður og dóttur heilsast vel, en barnið var tekið með keisaraskurði.

En þótt Leonor hin nýfædda sé núna önnur í erfðaröðinni á eftir föður sínum, þá myndi það breytast ef hún eignaðist lítinn bróður. Þá færðist hún aftur fyrir hann. Þetta eru ekki allir sáttir við og ríkisstjórn Zapateros hefur verið að myndast við að setja fram tillögu um breytingu á stjórnarskránni sem tryggi stúlkum jafnan erfðarétt og drengjum í konungsfjölskyldunni. Skýrt er tekið fram að breytingin yrði ekki afturvirk, þar sem Felipe krónprins á tvær eldri systur og þá yrði hann ekki kóngur.

 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×