Innlent

Aðeins þriðjungur félaga tekur þátt

MYND/Vísir

Kauphöll Íslands heldur kynningardag fyrir markaðsaðila í London í næstu viku. Aðeins þriðjungur félaga í kauphöllinni tekur þátt í kynningunni.

Kynningin verður sótt af völdum hópi fagfjárfesta og greiningaraðila en hún er haldin í húsakynnum kauphallarinnar í London. Þetta er annað árið í röð sem Kauphöll Íslands heldur slíkan kynningardag í Bretlandi en auk almennrar kynningar á íslenska markaðnum verða sérstakar kynningar frá sjö félögum: Bakkavör, Dagsbrún, FL Group, Íslandsbanka, Kaupþing Banka, Landsbankanum og Straumi-Burðarási. En er þörf fyrir svona kynningar fyrirtækja sem flest hver eru nú þegar með mikla starfsemi erlendis? Páll Harðarson, forstöðumaður rekstrarsviðs Kauphallarinnar, segir svo vera þrátt fyrir að mörg íslensk fyrirtæki hafi vakið aukna athygi erlendis undafarin misseri. Þarna komi nefnilega saman hópur fjárfesta sem séu líklegir til að beina sjónum sínum hingað til lands í nánustu framtíð.

Tuttugu og fjögur félög eru skráð í Kauphöll Íslands. Aðspurður hvers vegna einungis þessi sjö félög taki þátt í kynningunni segir Páll að þeim félögum sem væru í mestri útrás hafi verið boðið að taka þátt og þessi hafi einfaldlega þekkst það boð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×