Skoðun

Árangurstengd laun

Sæll Egill.

Ég er grunnskólakennari og er mjög hugsi þessa dagana. Þegar við kennarar vorum í erfiðri kjarabaráttu fyrir ári síðan þá voru menn eins og Einar Oddur og Gunnar Birgisson með dómsdagsspár um það að ef kennarar fengju kjarabætur umfram ASÍ þá færi þjóðfélagið beint á hausinn. Á okkur voru sett lög og fengum við sömu kjarabætur og ASÍ nema hvað að það eru engin rauð strik í okkar samningum. Nú stefnir allt í það að ASÍ segi upp sínum

samningum en við kennarar erum bundnir á klafann fram til ársins 2008. Ég verð búinn að vinna upp verkfallið í maí 2006 og eftir þann tíma get ég litið á kauphækkun mína sem kjarabót.

Þú skrifar um árangurstengd laun bankaforstjóra á heimasíðu þinni. Ég spyr: Af hverju eru sum störf í þessu þjóðfélagi árangurstengd en önnur ekki? Af hverju eru þessir menn í þessari aðstöðu nú? Er það vegna menntunar sinnar? Væri ekki nær að árangurstengja laun okkur kennara? Ég myndi sætta mig við léleg grunnlaun ef ég fengi t.d. 0,1 % af árslaunum hvers nemanda sem ég kenndi þegar hann væri kominn út á vinnumarkaðinn, segjum t.d. millifertugs og sextugs. Með þessu fyrirkomulagi myndum við hækka laun kennara verulega án þess að þjóðfélagið færi á hausinn, Einari og Gunnari til mikillar ánægju.

Kveðja, Sigurður Haukur Gíslason

Grunnskólakennari í bæ Gunnars I. Birgissonar



Skoðun

Sjá meira


×