Lífið

Nýr diskur Ingibjargar Þorbergs

Tónlistin er lífæð Ingibjargar Þorbergsdóttur, sem hefur aldrei hætt að semja tónlist frá því hún samdi sitt fyrsta lag fyrir sjötíu árum. Hún syngur sjálf á nýjum geisladiski með glóðvolgum lögum hennar, og ljóstrar hér upp leyndarmálinu á bak við það að henni tókst að halda röddinni mjúkri og fallegri fram á áttræðisaldur.

Allir þekkja Aravísur og fleiri sígildar perlur eftir Ingibjörgu Þorbergs, tónskáld sem nú er orðin 78 ára gömul og hvergi nærri hætt. Nýlega kom út diskur með nýjum lögum hennar við ljóð Kristjáns Hreinssonar.

Ingibjörg syngur öll lögin sjálf en nokkrar fortölur þurfti til að fá hana til þess. Hún segir ekki hafa sungið lengi en upptökur fyrir diskinn hafi staðið yfir tvo eftirmiðdaga.

Aðspurð hvernig henni hafi tekist að halda röddinni svo góðri segir Ingibjörg að hún hafi aldrei reykt og tekið lýsi alla ævi.

Ingibjörg hefur alltaf haldið áfram að semja í gegnum árin en elsta lag sem til er eftir hana samdi hún níu ára gömul. Aðspurð hvað fái hana til að semja svo mikið segir hún að þetta sé einhvers konar árátta. Þetta sé í henni og hún segist ekki hafa getað lifað ef hún hefði ekki einhverja tónlist í kringum sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×