Innlent

Vilja láta úrskurða um hæfi ráðherra til að skipa saksóknara

Verjendur sakborninga í Baugsmálinu krefjast þess að héraðsdómur úrskurði um hæfi dómsmálaráðherra til að skipa sérstakan saksóknara í málinu. Þeir eru sannfærðir um að orðið verði við kröfum þeirra.

Baugsmálið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, það er þeir átta ákæruliðir af 40 sem ekki var vísað frá dómi. Verjendur sakborninga kröfðust þess að héraðsdómur úrskurðaði um hæfi dómsmálaráðherra til að skipa sérstakan ríkissaksóknara, Sigurð T. Magnússon.

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, segir sakborninga í málinu telja sig hafa ástæðu til að efast um óhlutdrægni Björns Bjarnasonar í ljósi þeirra skrifa sem Björn hafi birt opinberlega um Baug og forsvarsmenn fyrirtækisins.

Aðspurður hvort sérhver stjórnmálamaður sé vanhæfur til að skipa menn í hin ýmsu verkefni í ljósi þess að þeir tjái sig um hin ýmsu mál segir Gestur að rétt sé að stjórnmálamenn hafi örugglega meira rými til þess að tjá sig um þjóðfélagsleg málefni en aðrir en það breyti ekki því að því séu örugglega takmörk sett hversu langt megi ganga í þeim efnum. Það sé skoðun sakborninga í Baugsmálinu að Björn Bjarnason hafi gengið langt yfir þau mörk.

Gestur er sannfærður um að dómari komist að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hafi verið vanhæfur til að skipa sérstakan saksóknara en tekur þóo fram að ákvörðunin sem slíka að ráða Sigurð T. Magnússon sé ekki gagnrýnisverð enda sé Sigurður afar hæfur til verksins.

Að auki lögðu verjendur sakborninga fram erindi til ríkislögreglustjóra þar sem krafist var skýringa á því hvers vegna ekki var gefin út ákæra á hendur tilteknum aðila, sumsé Jóni Geraldi Sullenberg. Gestur segir að bréf þessa efnis hafi verið lagt fram þar sem það liggi fyrir játning hans um að hann hafi framið refsiverðan verknað. Ákæran sé hins vegar gefin út á hendur aðilum sem allir hafi neitað sök varðandi sama verknað. Það sé svolítið sérstök staða þegar sá sem játar sé ekki ákærður en þeir sem hafi neitað séu það.

Frestur til að fara nánar yfir þessar kröfur sem og kröfu ríkislögreglustjóra um að ljúka matsgerð í málinu var gefinn til 16. nóvember og verður þá þingað að nýju í málinu og leyst úr ágreiningi um hæfi sérstaks ríkissaksóknara til að skipta sér af málinu.

Ekki náðist í Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×