Sport

Mandaric vill einn sigur í næstu fjórum leikjum

Í heitasta stólnum.
Alain Perrin á ekki auðvelt verkefni fyrir höndum með Portsmouth
Í heitasta stólnum. Alain Perrin á ekki auðvelt verkefni fyrir höndum með Portsmouth NordicPhotos/GettyImages

Milan Mandaric, stjórnarformaður Portsmouth, segir að liðið verði að vinna einn af næstu fjórum leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni. Þetta væru undir venjulegum kringumstæðum ekki harðar kröfur, en þegar málið er skoðað nánar er ljóst að Alain Perrin knattspyrnustjóri liðsins situr í heitasta stólnum í deildinni.

Portsmouth hefur aðeins unnið tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni í vetur og þar af hefur liðið enn ekki náð að vinna á heimavelli sínum. Þessir fjórir leikir sem Mandaric talar um, eru heldur ekki neinir smáleikir, því þeir eru útileikur við Liverpool, heimaleikur við Chelsea og svo útileikir við Manchester United og Tottenham, eða um það bil eins erfiðir leikir og völ er á.

Það er því ljóst að við fáum að sjá úr hverju Alain Perrin og Portsmouth liðið er gert á næstu vikum, en útlitið er sannarlega ekki glæsilegt hjá knattspyrnustjóranum.

Þess má svo til gamans geta að stjórn Portsmouth var sú fyrsta á Englandi til að gefa út yfirlýsingu í dag, þess efnis að liðið hefði áhuga á að fá Roy Keane í sínar raðir eftir að hann tilkynnti mjög óvænt í dag að hann væri hættur að leika með liði Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×