Innlent

Contalgin hið íslenska heróín

Yfirmaður fíkniefnalögreglunnar í Reykjavík segir að kalla megi morfínlyfið Contalgin hið íslenska heróín - svo vinsælt er það orðið á fíkniefnamarkaðnum. Hann segir að fréttaskýring Kompáss í gær hafi ekki síst fært lögreglunni heim sanninn um að nauðsynlegt sé að huga betur að baráttunni gegn læknadópinu en áður.

Fréttaskýringin í Kompási opnaði augu meira að segja fíkniefnalögreglunnar, sem verður ekki oft vör við læknadópið, þótt það flæði yfir fíkniefnamarkaðinn.

Þrjátíu manns hafa á síðustu 5 árum látist af of stórum morfínskammti. Tæplega tíu sinnum fleiri deyja eftir neyslu löglegra verkjalyfja eins og Contalgíns en af ólöglegum fíkniefnum.

Stjórnvöld leggja traust sitt á lyfjagagnagrunn til að stemma stigum við Contalgín-misnotkuninni, heróíni Íslands. Gagnagrunnurinn sýnir hvaða læknar ávísa miklu af Contalgíni og skyldum lyfjum og hvaða sjúklingar verða sér úti um það í óhófi.

Dópsalarnir græða á tá og fingri og eftirspurnin er mikil. Lögreglan tók einn þeirra eftir að Kompás afhjúpaði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×