Innlent

Tvö og hálft ár fyrir að nauðga fyrrverandi kærustu sinni

MYND/E.Ól

Karlmaður var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti í dag fyrir að hafa nauðgað fyrrverandi kærustu sinni á heimili sínu í Reykjavík fyrir rúmu ári. Réttturinn þyngdi dóm héraðsdóms um hálft ár.

Í dómnum segir að maðurinn hafi með ofbeldi og hótunum þröngvað konunni til samræðis við sig. Fyrir dómi neitaði hann sök og sagði að umrætt kvöld í nóvember í fyrra hefðu þau sammælst um að konan kæmi til hans til þess að hafa samræði í síðasta sinn áður en þau slitu stormasömu sambandi. Kom fram hjá honum að konan hefði haft allt frumkvæði að samræði þeirra umrætt kvöld.

Hins vegar lagði rétturinn ekki trúnað á frásögn hans en vitnisburður konunnar um málsatvik, þar sem fram kom að hann hefði hótað henni og beitt hana ofbeldi áður en hann nauðgaði henni, þótti hins vegar trúverðugur. Þá þótti framburður tveggja vinkvenna hennar, en önnur þeirra sá konuna hlaupa grátandi fáklædda út úr húsi ákærða, og framburður læknis, sem tók á móti henni á neyðarmóttöku, renna stoðum undir frásögn konunnar.

Var maðurinn því sakfelldur og dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi ásamt því að greiða konunni 700 þúsund krónur í miskabætur. Þá var hann dæmdur til að greiða sakarkostnað í héraði og Hæstarétti, rúmlega 1,1 milljón króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×