Innlent

Spenna um framtíðarsýn Símans

Eitt stærsta viðskiptaleyndarmálið þessa dagana er, í hverju síminn ætlar að fjárfesta eftir að hann eykur hlutafé sitt um 35 milljarða króna, eins og allt stefnir í.

Fyrir hluthafafundi Símans 20. desember næstkomandi liggur að samþykkja hlutafjáraukningu í félaginu um að minnsta kosti 35 milljarða króna og breyta samþykktum félagsins þannig að því verði heimilað að veita aðra þjónustu en eingöngu á sviði fjarskipta- og upplýsingatækni.

Fyrirhuguð hlutafjáraukning nemur meira en helmingi kaupverði Símans þannig að ljóst er að mikil fjárfesting er í sjónmáli hjá fyrirtækinu. Talsmenn Símans verjast allra frétta, en vangaveltur hafa verið um að fyrirtækið ætli að fara að fjárfesta í orkugeiranum vegna aukins viðskiptafrelsis á þeim vettvangi frá og með áramótum. Sérfræðingar á því sviði sjá þó ekki leikinn þar, því nánast það eina sem hægt sé að gera á því sviði núna, sé að kaupa raforku af framleiðanda og selja hana neytanda, án þess að eiga í framleiðslunni sjálfri eða flutningskerfunum, en til þess þurfi ekki nema nokkur hundruð milljónir króna. Þeim er heldur ekki kunnugt um að nokkurt orkufyrirtæki sé til sölu og ríkisfyrirtækið Landsnet á dreifikerfið til staðbundinna rafveitna. Hallast menn því einna helst að því að hlutafjáraukningin tengist einhverskonar útrás Símans til útlanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×