Innlent

Strípuðu fjallabíl og skildu eftir við Rauðavatn

MYND/Vilhelm

Bífrænir þjófar þurftu ekki langan tíma til að strípa jeppa sem þeir þeir stálu í Árbænum á þriðjudag. Flestallt nýtilegt var hreinsað úr honum á rúmum sólarhring að líkindum til þess að nýta í aðra bíla. Eigandi bílsins segir tjónið tölvuert.

Nissan Patrol jeppa hjónanna Sveinbjörns Garðarssonar og Bjargar Stefánsdóttur var stolið frá heimili þeirra í Árbæ aðfararnótt þriðjudagsins. Lögregla fann hann svo daginn eftir þar sem honum hafði verið ekið út af vegi við Rauðavatn. Við nánari athugun kom í ljós að búið var að rífa úr flest allt innan úr og utan af bílnum, allt frá sætum og klæðningu til framstuðara og ljóskastara.

Sveinbjörn segir þau hjónin hafa átt bílinn í eitt ár og að hann hefði verið í toppstandi enda svokallaður dekurbíll sem aðeins var notaður í fjallaferðir. Hann segir tjónið talsvert. Flestallt hafi verið tekið úr bílnum og ekki sé auðvelt að fá sams konar varahluti núna, en bíllinn er 13 ára. Hann telji að tjónið nemi 200-300 þúsund krónur.

Sveinbjörn segir að bíllinn hafi ekki verið kaskótryggður þar sem þau hjónin hafi lítið notað hann og því fái hann tjónið ekki bætt. Þá segir hann lögreglu ekki bjartsýna á að bílhlutarnir finnist. Heilu bílarnir af svipaðri stærð finnist ekki og þá sé ekki mikil von til að partarnir finnist.

Sveinbjörn útilokar ekki að gera bílinn upp aftur. Ef hann fái nýtilega bílaparta geti hann vel hugsað sér að laga bílinn eftir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×