Lífið

Útgáfutónleikar L'amour fou

Í tilefni af útgáfu geisladisksins "Íslensku lögin" heldur hljómsveitin L'amour fou tónleika í Þjóðleikhúskjallaranum næstkomandi fimmtudag, 15. desember kl. 21.

Leikin verða lög af disknum, sem inniheldur ástsæl íslensk dægurlög 6. og 7. áratugarins, svo sem lögin Sveitin milli sanda, Við gengum tvö, Frostrósir og Þú og ég. Á dagskrá tónleikana verða einnig verk eftir tvö þekkt tónskáld, þau Nino Rota og Astor Piazzolla.

Hljómsveitina L'amour fou skipa þau Hrafnhildur Atladóttir á fiðlu, Guðrún Hrund Harðardóttir á víólu, Hrafnkell Orri Egilsson sem leikur á selló auk þess að útsetja, Gunnlaugur Torfi Stefánsson á bassa, og Tinna Þorsteinsdóttir á píanó.

Sveitin var stofnuð 1999 og hefur haldið tónleika víða á síðustu árum, meðal annars í Kaffileikhúsinu og Iðnó. Undirtektir gesta hafa einatt verið góðar og þeir hrifist með heillandi og stríðnislegum útsetningum á dægurtónlist sem fylgt hefur þjóðinni í áratugi. Þetta verða einu tónleikar sveitarinnar að þessu sinni því hljómsveitarmeðlimir eru dreifðir vítt og breitt um heiminn við störf í tónlist.

Næstkomandi föstudag leikur hljómsveitin einnig í verslun 12 Tóna við Skólavörðustíg 15. Tónleikarnir hefjast klukkan 18:00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×