Sport

Hefur brennt allar brýr og ætti að hætta strax

Er Sir Alex á síðustu metrunum hjá Manchester United?
Er Sir Alex á síðustu metrunum hjá Manchester United? NordicPhotos/GettyImages

Breski almannatengslasérfræðingurinn Max Clifford telur að Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United sé búinn að brenna allar brýr að baki sér í samskiptum sínum við fjölmiðla og telur að honum væri hollast að segja af sér á meðan hann haldi enn einhverri reisn.

"Það er ekkert til sem heitir málamiðlun hjá Ferguson, hann er alltaf í árásarhug og slíkt hjálpar honum ekki í samskiptum við fjölmiðla, heldur vinnur það gegn honum," sagði Clifford.

Ferguson hefur undanfarið líkt umfjöllun fjölmiðla um lið sitt við hatursfullar árásir og Clifford segir það vera dæmigerð viðbrögð frá stjóranum. "Málið er komið á það stig að Ferguson getur ekki byrjað að afla sér vina á meðal fjölmiðlamanna eftir það sem á undan er gengið. Honum hefur verið hrósað mikið í gegn um tíðina og það er ekki rétt sem hann segir að hann hafi aldrei fengið annað en harða gagnrýni," sagði Clifford og telur Ferguson hafa dottið í sömu gryfju og verkamannaflokkur Tony Blair.

"Ferguson hefði átt að koma hlutunum í lag þegar allt var í blóma hjá honum og liði hans gekk vel. Þú verður að hlúa að fjölmiðlamönnum þegar þeir þurfa meira á þér að halda en þú á þeim. Eina ráðið sem ég get gefið Ferguson í dag er að segja af sér og hann ætti að gera það núna, svo hann geti sjálfur skipulagt það og sleppi við að verða rekinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×