Sport

Óttaðist að komast ekki á HM

Sven-Göran var orðinn smeykur í haust og viðurkennir að á tímabili hafi hann óttast að koma Englendingum ekki á HM
Sven-Göran var orðinn smeykur í haust og viðurkennir að á tímabili hafi hann óttast að koma Englendingum ekki á HM NordicPhotos/GettyImages

Sven-Göran Eriksson, landsliðsþjálfari Englendinga, viðurkenndi í viðtali um helgina að hann hafi á tímabili óttast að liðið kæmist ekki á HM vegna slakrar spilamennsku. Þetta hafi sérstaklega átt við þegar Englendingar voru rassskelltir í Danmörku og þegar liðið tapaði fyrir Norður-Írum í haust.

"Ég verð að viðurkenna að ég var dálítið smeykur um að liðið kæmist ekki á HM. Tapið í Danmörku var okkur auðvitað mjög erfitt, en þar notaði ég leikmenn sem voru ef til vill ekki í nógu góðri leikæfingu og það kunna að hafa verið mistök. Ég sá það glöggt að þegar við spilum ekki saman sem lið og ef andinn er ekki góður, erum við hreint ekkert sérstakt knattspyrnulið. Ég gerði mér grein fyrir því þegar við töpuðum þessum leikjum að ef við bættum ekki leik okkar, væri mikil hætta á því að við kæmumst ekki upp úr riðlinum okkar," sagði Svíinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×