Innlent

Strandavegur mjög illa farinn

Vegurinn frá Hólmavík á Ströndum að Brú í Hrútafirði er illa á sig kominn. Auknir stórflutningar um veginn hafa leikið hann illa og nú horfa Strandamenn til vegar um Arnkötludal sem myndi stytta leiðina á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar um 40 kílómetra. Frá því sjóflutningar í kringum landið lögðust af hefur umferðin um Strandaveg aukist gífurlega. Jón Hörður Elíasson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Hólmavík, segir nauðsynlegt að lagfæra veginn. Því miður sé vegakerfið á þessum slóðum þannig að það beri ekki uppi þessa miklu flutninga. Aðspurður hvort það sjái mikið á veginum eftir stóra flutningabíl jánkar Jón því, það sjái talsvert á honum. Jón segir að um hundrað milljónir fáist til lagfæringa á veginum á þessu ári en hann telur það alls ekki nóg. Það þurfi á köflum að byggja veginn upp frá grunni. Ljóst sé að ef engir kaflar á honum verði lagfærðir verulega og byggðir upp þá horfi til vandræða. Jón telur það góðan kost að leggja veg fram Arnkötludal á Ströndum sem myndi fara niður Gautsdal á þjóðveg 60 rétt vestan við Króksfjarðarnes. Sá vegur myndi stytta leiðina á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur um 40 kílómetra. Hann segist þó ekki eiga von á því að sú leið verði komin í gangið fyrr en eftir 2012. Aðspurður hvort ekki sé þörf á henni miklu fyrr segir Jón að ef ekkert eigi að gera á leiðinni milli Hólmavíkur og Brúar í Hrútafirði sé það raunin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×