Innlent

Ekki aðildarviðræður að ESB

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra telur hvorki tímabært né skynsamlegt að fara út í aðildarviðræður að Evrópusambandinu á þessu kjörtímabili. Slíkt væri heldur ekki í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnnar um samstarf. Þetta kom fram í setningarræðu hans á flokksþingi Framsóknarflokksins sem nú stendur yfir á Grand Hótel í Reykjavík. Halldór sagði jafnframt að framsóknarmenn eigi ekki að vera feimnir við að ræða málið fordómalaust í grasrótinni og á flokksþinginu því ákvörðun um aðild kunni að koma fyrr en seinna. Formaðurinn nálgaðist hin viðkvæmu byggðamál með nýstárlegum hætti í setningarræðu sinni þegar hann sagði að alls staðar á landinu væru áherslur svipaðar: stytting leiða og betri samgöngur við höfuðborgina. Þetta væri sönnun þess að þjóðin vilji breytingar og gerði sér grein fyrir að áfram yrði haldið á sömu braut. Orðrétt sagði Halldór: „Við eigum ekki að koma í veg fyrir að byggðin þéttist og eigum ekki að sporna gegn slíkri þróun ...“ Nokkru síðar sagði hann: „Höfuðborgin er miðstöð stjórnsýslu og menningar. Án nets og strauma um allt land er hún ekki sönn höfuðborg og með henni eru byggðirnar í landinu sterkari.“ Síðan vék Halldór að styrkingu kjarnabyggða við Eyjafjörð og á Ísafjarðarsvæðinu en nefndi aldrei að nauðsyn væri að viðhalda byggð á strjálbýlustu svæðunum eða styrkja smá og afskekkt sjávarþorp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×