Sport

Við föllum vel inn í þennan hóp

Þeir Tryggvi Guðmundsson úr FH, Kristján Finnbogason úr KR og Helgi Valur Daníelsson úr Fylki eru nokkuð sér á báti í íslenska landsliðinu því þeir eru einu leikmennirnir í hópnum sem leika með knattspyrnuliðum hérlendis. Fréttablaðið spurði þá félaga hvernig tilfinning það væri að vera einu heimamennirnir í hópnum. „Venjulega eru þetta ekki nema einn eða tveir menn í hópnum sem spila hérna heima og það er bara gaman. Það er mjög góður andi í hópnum og við stefnum á að vinna Ungverjana hérna á laugardaginn. Við sem spilum hérna heima föllum bara vel inn í þennan hóp og erum aðallega spurðir frétta úr íslenska boltanum," sagði Kristján Finnbogason markvörður. Blaðamaður sneri sér því næst að Tryggva Guðmundssyni, sem var að ljúka við annað viðtal á Laugardalsvellinum og þá mátti heyra einn félaga hans kalla hæðnislega úr bakgrunninum „hrokann, hrokann", en svo virtist sem Tryggvi heyrði það ekki. „Tilfinningin er góð og þótt hópurinn sé nokkuð breyttur síðan ég var hérna síðast er kjarninn sá sami og það er alltaf gaman að hitta strákana aftur," sagði Tryggvi. „Það er alltaf viðurkenning að vera valinn í landsliðið því það gefur til kynna að maður hafi verið að standa sig vel í því sem maður er að gera. Svo verður bara að koma í ljós hvort ég fæ að spila eða ekki, en ég get lofað því að ég legg mig fram ef ég fæ tækifæri," sagði Tryggvi. En fá þeir engar glósur frá „stjörnunum" sem leika með stærri liðum erlendis? „Nei, það eru engir kóngastælar í þeim, enda þýðir það ekkert. Við erum að standa okkur hérna heima alveg eins og þeir, þannig að það er ekkert hægt að stríða okkur," sagði Tryggvi léttur í bragði og bætti við að hann myndi gera sitt besta til að komast í tug landsliðsmarka ef hann fengi tækifæri, en hann hefur skorað níu mörk fyrir landsliðið. „Það er gaman til þess að vita að þeir Ásgeir og Logi eru að fylgjast vel með því sem er að gerast hérna heima fyrst þeir velja okkur þrjá í hópinn," sagði Helgi Valur. „Að mörgu leyti er þetta bara eins og að koma aftur á æfingu með yngra landsliðinu, því þetta eru margir sömu strákar og maður hefur verið að spila með í gegnum árin". En hvernig er að vera að spila með stóru löxunum? „Maður var nú kannski dálítið smeykur svona fyrst þegar maður kom inn í þetta, en um leið og maður byrjaði að spila var þetta fljótt að fara."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×