Innlent

Tekur fyrir uppsagnartillöguna

Sveitarstjórn Skagafjarðar mun í dag taka afstöðu til tillögu sem Gísli Gunnarsson, oddviti sveitarstjórnar, hyggst leggja fram um uppsögn Ársæls Guðmundssonar, sveitarstjóra Skagafjarðar. Gísli, sem er oddviti sjálfstæðismanna í sveitarstjórninni, er ásamt tveimur öðrum fulltrúum síns flokks í meirihlutasamstarfi við Vinstri græna sem Ársæll sveitastjóra er oddviti fyrir. Núningur hefur verið milli Gísla og Ársæls í kjölfar neitunar Gísla og annarra sjálfstæðismanna á erindi Ársæls sem hugðist sækja sveitarstjórnarráðstefnu í Brussel á sveitarstjórnarfundi nýverið. Í kjölfarið hófust ritdeilur milli oddvita samstarfsflokkanna sem nú hafa leitt til þess að Gísli hyggst afla meirihluta til að segja Ársæli upp störfum. Í samtali við fréttastofu sagði Gísli að það yrði að koma í ljós hvort tillaga hans nyti nægjanlegs stuðnings innan sveitarstjórnarinnar en viðbúið er að Gísli þurfi að leita liðsinnis minnihlutaflokka Framsóknar og Skagafjarðarlista til fá tillöguna samþykkta. Ársæll Guðmundsson verst allra frétta af málinu fyrr en að loknum fundinum í dag. Núningurinn í sveitarstjórn Skagafjarðar kemur upp nú á sama tíma og íbúar sveitarfélagsins kjósa um sameiningu við nágranna sína í Akrahreppi í kosningum næstkomandi laugardag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×