Hvítan reyk lagði upp úr páfareykháfnum á Sixtínsku kapellunni í Vatikaninu skömmu fyrir klukkan fjögur. Nokkur óvissa ríkti þó með litinn á reyknum, hann var dökkur til að byrja með en varð svo hvítur. Staðfesting þess að nýr páfi hefði verið valinn kom ekki fyrr en farið var að hringja kirkjuklukkunum í Péturskirkjunni. Nú hringja reyndar allar kirkjuklukkur í Róm. Hundrað þúsund manns fylgdust með og fögnuðu á Péturstorginu og milljónir manna fylgdust með beinni útsendingu í sjónvarpi.
Kardinálarnir þurftu aðeins fjórar eða fimm atkvæðagreiðslur, það er ekki alveg ljóst hvort er, til að komast að niðurstöðu, sem er óvenju stutt. Þeir voru aðeins verið lokaðir inni í rúmar þrjátíu klukkustundir. Píus tólfti er sá eini sem hefur tekið styttri tíma að kjósa, en hann var kjörinn í þriðju atkvæðagreiðslu árið 1939.
Það var chílenski kardinálinn Jorge Arturo Medina Estevez sem tilkynnti val páfa með orðunum: „Habemus Papam“, Við höfum páfa.
Joseph Ratzinger er fæddur í Bæjaralandi árið 1927 og hefur starfað í Vatíkaninu frá árinu 1981. Hann var einn nánasti samstarfsmaður Jóhannesar Páls páfa og hefur verið nokkuð umdeildur vegna íhaldssamra skoðana sinna, en hann hefur barist gegn nútímavæðingu kaþólsku kirkjunnar. Ratzinger er 265. páfi rómversk-kaþólsku kirkjunnar og sjötti Þjóðverjinnn til að gegna embætti páfa.



