Skoðun

Skriður kominn á sjóminjasafnið

Stefán Jón Hafstein skrifar
Nýtt safn í Reykjavík - Stefán Jón Hafstein



Nú hillir undir að Íslendingar eignist nýtt og glæsilegt sjóminjasafn. Sjálfeignarstofnun um Víkina-Sjóminjasafnið í Reykjavík var sett á laggirnar fyrir skömmu. Safnið er til húsa að Grandagarði 8, gamla BÚR-húsinu. Á stofnfundi safnsins kom fram að stefnt yrði að því að opna fyrstu sýningu á sjómannadaginn 2005. Mörgun þótti það nokkuð djörf áætlun að undirbúa og opna sýningu á hálfu ári, en útlit er enn fyrir því að sú bjartsýna áætlun takist.

Fyrsta stóra verkefni safnsins er að setja upp sýninguna "Togaraöldin" í tilefni af 100 afmæli togaraútgerðar á Íslandi. Árið 1905 kom togarinn Coot til landsins og 1907 var togarinn Jón forseti smíðaður fyrir Reykvíkinga. Við upphaf síðustu aldar varð heilmikil vakning meðal landsmanna, en sennilega skópu togararnir mestu byltinguna.

Á árunum 1905-1917 fengust 28 aðilar við togaraútgerð á Íslandi, þar af var 21 í Reykjavík og Viðey. Togaraútgerð þar skapaði fyrsta verulega auðmagnið á Íslandi á 20 öld. Sýning sjóminjasafnsins mun reyna að endurspegla þessi miklu umskipti sem urðu á kjörum lands og þjóðar með togurunum. Þá verður reynt að skyggnast inn í líf og aðbúnað sjómanna og fjölskyldna þeirra á öldinni sem leið.

Reykjavík er hafnarborg og fáir gera sér grein fyrir því, hve Reykjavík er mikill útgerðarbær; við gömlu höfnina í Reykjavík er landað verðmætasta afla landsins ár hvert. Víkin-Sjóminjasafnið í Reykjavík mun leitast við að þjóna hagsmunum heimamanna sem og ferðamanna varðandi kynningu á sambúð Íslendinga við hafið, fiskveiðum og vinnslu. Sagan kallar á sjóminjasafn.

Fyrsti Reykvíkingurinn var sæfari og lífsafkoma bæjarbúa hefur byggst mjög mikið á sjónum. Kaupsiglingar hafa verið stundaðar um aldir til Reykjavíkur. Iðnaður og þjónusta tengd sjósókn eru umfangsmikil í borginni sem og stofnanir á vegum hins opinbera. Við skuldum hetjum hafsins og þeim sem gerðu svo mikil verðmæti úr aflanum að sögu þeirra sé minnst.

Reykjavíkurborg hafði fyrir sitt leyti forgöngu um undirbúning og leggur fram langmesta stofnféð, 10 milljónir króna á ári. Öflugir bakhjarlar, HB-Grandi, Íslandsbanki, Faxaflóahafnir og Eimskip, leggja saman fram rúmlega annað eins á móti. En þörf er á að fleiri leggist á árarnar með okkur.

Nú reynir á hvort útgerðin, fiskvinnslan og allir sem áhuga hafa á sjósókn og mikilvægi sjálvarútvegs vilji koma að þessu samstarfsverkefni. Þess vegna leitar nú stjórn safnsins að fleiri samstarfs- og styrktaraðiljum til að halda uppi merkjum sjávarútvegs og minnast þess sögulega hlutverks sem hafið og sjósókn hafa á lífi á Íslandi. Ég trúi því og treysti að afli verði góður þegar við róum á mið þeirra sem til greina koma sem samstarfsaðilar um safnið.

Sjóminjasafnið er sjálfseignarstofnun og byggist starfið að miklu leyti á því, hvað fyrirtæki og stofnanir eru reiðubúin að láta af mörkum til sýningar um 100 ára sögu togaraútgerðar - og síðar þegar stór og glæst sýning um hlut sjávarútvegs í íslenskri menningu verður opnuð.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×