Innlent

Afleiðingar skilorðsdóma engar

"Mitt mat er að gera þarf greinarmun á þeim sem brjóta af sér í fyrsta skipti og svo aftur síbrotafólki," segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík. Athygli hefur vakið að talsverður fjöldi síbrotamanna hljóta ítrekað skilorðsbundna dóma en Geir Jón segir það ekki hlutverk lögreglu að gagnrýna dómstólana. "Síbrotamenn þurfa auðvitað að finna að síendurtekin afbrot þýða mikla þyngingu refsingar en það sem vegur meira að mínu viti eru þeir sem dæmdir eru fyrir sín fyrstu brot. Það er ekki nóg að opna dyrnar að Litla hrauni fyrir því fólki heldur þarf að koma þessu fólki til hjálpar áður en það er um seinan. Þetta á sérstaklega við um það fólk sem hefur verið í neyslu og er að líkindum að hefja sinn brotaferil. Afleiðingar skilorðsdóms til handa þeim sem brjóta af sér í fyrsta sinn eru engar." Jón segir tilraunaverkefni þegar hafið gagnvart ungum og ósakhæfum einstaklingum í Grafarvogi og Breiðholti. "Þar hefur þessu unga fólki sem brýtur af sér verið gert að setjast niður með brotaþolunum og málin krufin á þann hátt að viðkomandi bætir fyrir brot sitt með einhverjum hætti. Árangurinn af þessu lofar góðu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×