Innlent

Höfðu samráð í nýju tjónakerfi

Tryggingafélögin höfðu með sér ólögmætt verðsamráð þegar þau tóku í notkun samræmt kerfi til að meta tjón. Samkeppnisráð sektar félögin um sextíu milljónir króna. Þrátt fyrir að Samkeppnisstofnun kæmist að þeirri niðurstöðu eftir hartnær sjö ára rannsókn sem lauk í fyrrvavor að tryggingafélögin hefðu á ýmsan hátt farið á svig við samkeppnislög sluppu félögin við sektir en gerð var sátt í málinu. Ábending utan úr bæ sem barst löngu eftir að fyrri rannsóknin fór af stað leiðir nú til þess að tryggingafélögin þurfa að seilast í vasann, ekki djúpt en samt. Tryggingafélögin tóku upp kerfisbundið tjónamat sem heitir Cabas og byggist á ákveðinni reikniformúlu og mælingum árið 2002. Það felur í sér að öll verk og öll tjón eru reiknuð til ákveðinna eininga. Síðan á hvert og eitt félag að semja við viðgerðarverkstæðin um verð fyrir eininguna. Samkeppnisstofnun hafði ekkert við það að athuga. Hins vegar þótti öllu verra að félögin hefðu haft með sér ólögmætt verðsamráð og byðu verkstæðunum sama verð. Það var eigandi bílaverkstæðis sem grunaði að maðkur væri í mysunni og gerði Samkeppnisstofnun viðvart. Rannsókn stofnunarinnar leiddi í ljós að félögin hefðu komið sér saman um fast viðmiðunarverð sem þau hefður boðið verkstæðunum. Þá höfðu félögin einnig samráð um kaup á viðgerðarþjónustu hjá P. Samúelssyni eða Toyota. VÍS bauð fram sættir í málinu eftir að rannsókn fór af stað og viðurkenndi brotið greiðlega. Nokkru seinna fylgdi Tryggingamiðstöðin á eftir og náðust sættir bæði við VÍS og Tryggingamiðstöðina. Sjóvá-Almennar kaus hins vegar að láta reyna á málið fyrir samkeppnisráði. Þrátt fyrir að fyrirtækin teljist jafn brotleg fóru leikar þannig að VÍS á að greiða fimmtán milljónir, Tryggingamiðstöðin 18,5 en Sjóvá-Almennar 27. Þorgils Óttar Mathiesen, forstjóri Sjóvár-Almennra, segir að fyrirtækið telji sig ekki hafa brotið samkeppnislög. Nýtt tjónamatskerfi hafi verið innleitt og það hafi verið gert með hag neytenda í huga og fyrirtækið telji að gögn sýni að Sjóvá-Almennar hafi ekki staðið að ólöglegu samráði. Aðspurður hvort hin tryggingafélögin hafi staðið að ólöglegu samráði, þar sem þau sömdu um sekt, en Sjóvá-Almennar staðið þar fyrir utan segist Þorgils ekki geta svarað fyrir hin félögin en hann telji gögn sýna að félagið hafi ekki staðið að ólöglegu samráði. Það eina sem liggi fyrir sé að félögin hafi staðið saman að því að meta breytingaþörf á einingaverði í nýja tjónamatskerfinu en Sjóvá-Almennar hafi samið við hvert og eitt verkstæði um verð á þjónustunni. Félagið muni því leita til áfrýjunarnefnar samkeppnismála með málið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×