Innlent

Þingið á suðupunkti á tímabili

Magnús Þór Hafsteinsson var endurkjörinn varaformaður Frjálslynda flokksins með tæplega 70 prósentum atkvæða á landsþingi flokksins í dag. Landsþingið var á suðupunkti síðdegis áður en niðurstaðan fékkst en svo féll allt í ljúfa löð. Magnús Þór Hafsteinsson og Gunnar Örn Örlygsson tókust hart á um varaformannsembættið og á tímabili var mikil ólga á landsþinginu. Um tíma leit út fyrir að Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, myndi bjóða sig fram til að bera klæði á vopnin. Konur á landsþinginu fylktu sér að baki Margréti og hvöttu hana til að gefa kost á sér. Margrét ákvað hins vegar að verða ekki við þeirri áskorun. Hún sagðist ætla að halda friðinn á þinginu og hvatti þá sem voru í framboði að gera slíkt hið sama svo ekki yrðu eftirmál af slagnum. Hún minnti frambjóðendur á það að ekkert embætti væri stærra en sá gegndi því. Magnús Þór Hafsteinsson var endurkjörinn með rúmlega 69 prósentum atkvæða. Eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir féllust keppinautarnir í faðma. Magnús ávarpaði þingið í kjölfarið og lofaði því að starfa áfram af fullri einurð og festu og standa heiðarlega að málefnum flokksins í framtíðinni og vinna með forystu flokksins að því að tryggja honum góð úrslit í sveitastjórnarkosningum 2006 og í þingkosningum árið eftir. Tæplega 200 manns sóttu landsþing Frjálslynda flokksins og var formaðurinn Guðjón Arnar Kristjánsson ánægður með þingið og sagði það hafa gengið vel. Aðspurður taldi hann ekki að harður varaformannsslagur myndi skaða flokkinn heldur kæmi hann sterkari út úr honum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×