Innlent

Ákæruskjalið ónýtt

"Ég fagna náttúrulega þessari niðurstöðu og hún er í samræmi við það sem við höfum haldið fram. Þetta er jafnframt mikill áfellisdómur fyrir ákæruvaldið," segir Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, sem staddur er í Bandaríkjunum. Jón Ásgeir segir ljóst að málatilbúnaðurinn hafi verið stórgallaður og tekinn hafi verið af allur vafi um það. "Starfsumhverfi okkar verður auðveldara í kjölfar þessa úrskurðar." Jón Ásgeir hefur haldið því fram að ákærurnar væru í ætt við ofsóknir gegn sér og eigendum Baugs. "Þessi niðurstaða styður það að þeir glæpir hafi ekki verið framdir sem ákærandinn lýsir. Og þá spyr maður af hverju er hægt að láta svona viðgangast. Hvernig stendur á því að hægt er að rannsaka málið í þrjú ár og koma svo með skjal sem er svo haldlítið og ónýtt að það kemst ekki einu sinni fyrir dóm?" Jón Ásgeir segir að niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í gær hafi ekki komið sér á óvart. "Eins og fram kemur í úrskurðinum eru einnig gallar á öðrum atriðum í ákærunni en þeim átján liðum sem áður höfðu verið taldir ófullnægjandi. Þetta mál er allt hið furðulegasta. Fyrirtækið hefur sagt að ekki hafi verið brotið á því og endurskoðendur og lögfræðingar hafa komist að sömu niðurstöðu. Samt er haldið áfram. Hvað býr að baki og hversu langt má ganga? Þetta hlýtur að kalla á umfangsmikla skoðun á embætti Ríkislögreglustjóra," segir Jón Ásgeir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×