Matur

Allt er gott með nógri sósu: Bernaisesósa og hnetusósa "Satay"

Tak frá mér Guð allt sósusull, sagði Þórbergur Þórðarson einu sinni en það eru ekki allir á sama máli og hann um sósur. Sumir geta ekki hugsað sér að borða kjöt án þess að þykk, brún eða gullin sósa leiki um það, austurlenskur matur væri ekki nema svipur hjá sjón ef ekki væri fyrir sósurnar sem gefa matnum bragð, lykt og lit og þá er ótalin hnausþykk súkkulaðisósa út á kökur eða ís. Við fengum tvo matreiðslumenn til að gefa okkur uppskriftir að mjög ólíkum en sívinsælum sósum.

Guðni Jón Árnason, yfirmatreiðslumaður á Hereford Steikhúsi, gefur hér uppskrift að sígildri bernaise-sósu.

Bernaisesósa

4 eggjarauður

400 gr smjör (brætt)

2-3 msk. Bernaise-bragðefni

1-2msk. estragon

1tsk. nautakraftur

1 sítrónubátur

salt og pipar

Smjörið er brætt. Þeytið eggjarauðurnar og bernaise-bragðefnið saman yfir heitu vatnsbaði.Smjörið er sett varlega út í og pískað vel saman. Bragðbætt með estragoni, kjötkrafti, sítrónusafa, salti og pipar.

Óli Kárason á Asíu gefur okkur uppskrift að súrsætri sósu og indónesískri hnetusósu "satay".

Hnetusósa „Satay" að asískum hætti

2 bollar af kjúklingasoði

3 matskeiðar "Crunchy Peanut" Hnetusmjör (Peter Pan)

1/2 matskeið af salti

1/2 matskeið af sykri

1 matskeið af grófu maukuðu chili

Maísmjöl eftir smekk

Kjúklingasoð og hnetusmjör er hrært saman í potti við miðlungshita. Síðan er salti, sykri og chili blandað út í og þykkt með maísmjöli eftir smekk. Hnetusósan bragðast mjög vel út á kjúkling og fisk en einnig stendur hún prýðilega með tofú kjöti og grænmeti.

Súrsæta sósan

3 litlar dósir af tómatkrafti

2 bollar af ananassafa

2 bollar af sykri

3 bollar af vatni

1 gróft skorinn laukur

Maísmjöl eftir smekk

Allt innihald er hrært saman við miðlungshita og svo þykkt upp að vild með maísmjöli. Súrsæt sósa er einkar ljúffeng með djúpsteiktum mat, sérstaklega þó rækjum.

Gott er að bera fram hrísgrjón með þessum sósum þar sem þau blandast þeim vel og auka enn á bragðgæðin.

Að lokum fylgir svo ein uppskrift að einfaldri en frábærri súkkulaðisósu sem er góð með flestum eftirréttum, út á ís, ávexti eða kökur.

Mars eða suðusúkkulaði er hitað í örbylgjuofni í hálfa til eina mínútu. Bætið rjóma út í og hrærið rólega saman við.

Nammi namm.

Hnetusósa
Súrsæta sósan





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.