Innlent

Keypti íbúð á Reyðarfirði

Karl Heimir Búason er fæddur og uppalinn á Eskifirði. Hann seldi íbúðina sína á Eskifirði í haust og hefur nú keypt þriggja herbergja 90 fermetra íbúð á sjöundu hæð í blokk á Reyðarfirði fyrir 14 milljónir króna. Hann fær íbúðina afhenta í júní og flytur þá til Reyðarfjarðar. Gömlu íbúðina keypti hann á 2,8 milljónir fyrir tíu árum en seldi hana á 7,7 milljónir og er ánægður með þau viðskipti. Karl Heimir ætlaði alltaf að kaupa hús á Eskifirði en fann ekkert sem honum líkaði enda hafa ekki verið miklar byggingaframkvæmdir þar. Karl Heimir tekur fullan þátt í uppbyggingunni í Fjarðabyggð. Hann rekur Valhöll á Eskifirði og tekur við rekstri Félagslundar á Reyðarfirði á næstunni. Hann hefur í bígerð að hefja þar kvikmyndasýningar því að bíó hefur hvergi verið í Fjarðabyggð síðustu árin nema á Seyðisfirði. "Ég myndi segja að unga fólkið væri að flýja héðan frekar en hitt. Það hættir ekki við að fara í skólann en kemur hingað í vinnu á sumrin og fer svo aftur," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×