Innlent

Kantbitar steyptir í Reyðarfirði

Búið er að negla niður 380 metra stálþil í nýju höfninni í Reyðarfirði. Verið er að steypa kantbitana á það og á því verki að vera lokið 1. júlí. Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri segir að líklega klárist verkið ekki þá en hægt verði að athafna sig á 100 metra kafla eins og álverssamningarnir geri ráð fyrir. "Þeir ætla að nota höfnina til þess að geta skipað í land byggingarefnum og það verður hægt á réttum tíma. Þarna er núna verið að semja við fyrirtæki um að byggja undirstöður fyrir löndunarkrana. Það klárast í haust en höfnin á að vera tilbúin haustið 2006. Hátt í 15 manns vinna við hafnargerðina á vegum Arnarfells og Gáma- og tækjaleigu. Í haust og á næsta ári verða tengdar framkvæmdir boðnar út. Guðmundur segir að höfnin sé fjármögnuð til helminga af ríki og sveitarfélagi. Þegar hafi verið teknir 1,2 milljarðar í lán en gert sé ráð fyrir að lántaka sé í lágmarki á næsta ári. "Það eru engar stórar lántökur í farvatninu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×