Innlent

Meningókokkum C útrýmt

Tekist hefur að útrýma meningókokkum C á Íslandi hjá fólki undir tvítugu en bakterían veldur meðal annars heilahimnubólgu og hefur kostað fjölda mannslífa. Þetta er árangur bólusetningar sem hófst fyrir tveimur og hálfu ári. Með bólusetningunni hefur tekist að bjarga fjölda mannslífa. Átakið hófst í október árið 2002. Bólusetja átti alla Íslendinga undir tvítugu og tókst að ná í liðlega 85 prósent, en bólusetningaraðgerðinni lauk á einu ári. Þórólfur Guðnason læknir, sem hafði veg og vanda af verkefninu, segir að nú strax sé hægt að meta árangurinn. Ekki hafi orðið vart við eitt einasta tilfelli af meningókokkum C hjá fólki undir tvítugu eftir að bólusetning hófst gegn þeim. Að sögn Þórólfs veiktust 8-10 Íslendingar undir tvítugu á ári og var dánartíðnin um 10% þannig að einn lést að meðaltali á ári eða annað hvert ár. Meningokókkar C valda meðal annars heilahimnubólgu og blóðsýkingum og meðganga sýkingarinnar er oft stutt. Það er því ljóst að með átakinu hefur tekist að bjarga mannslifum. En það er ekki bara að þessi mikli árangur hafi náðst. Þórólfur segir átakið einnig hafa verið skoðað fjárhagslega. Gerð hafi verið kostnaðarhagkvæmnisgreining á átakinu og það hafi komið í ljós að það sé mjög kostnaðarhagkvæmt að standa fyrir átaki sem þessu. Tilfellum hjá þeim sem eru yfir tvítugu og voru ekki bólusettir hefur einnig snarfækkað. Hér á Íslandi hefur B-stofn þessara bakteríu einnig greinst en ekkert bóluefni er enn til við honum. Auk átaksins er bólusett gegni meningókokkum C í almennum ungbarnabólusetningum þannig að þetta skipulag er til framtíðar. Þórólfur segir að bólusetningin sé inni í ungbarnabólusetningum við 6 og 8 mánaða aldur og verði það væntanlega eitthvað áfram. Erfitt sé að segja til um það hvort það breytist síðar meir en hann segist geta fullyrt í dag að bólusetningin verði áfram inni í bólusetningarskemanu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×