Innlent

Stofna samráðshóp um húsarifin

Húsarif á Laugavegi og breytingar þar hafa vakið sterk viðbrögð og nú hafa borgaryfirvöld ákveðið að stofna samráðshóp, skipulagsnefnd til ráðgjafar. Hópurinn á að starfa á meðan breytingarnar standa yfir en gert er ráð fyrir að þær taki tvo áratugi. Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsnefndar, segir tilganginn vera að bregðast við að mörgu leyti eðlilegum áhyggjum fólks af því að það sem komi í staðinn fyrir eldri húsin verði ekki til að prýða umhverfið. Með því að setja á fót faghóp með fulltrúum íbúa þá telji borgaryfirvöld að skipulagsnefnd hafi þann stuðning sem þurfi til að tryggja að markmið skipulagsins gangi eftir. Spurður hvort þetta sé leið til að bjarga máli sem hafi verið orðið hálfgert klúður segir Dagur svo ekki vera, heldur þvert móti. Skipulagið sé gott að hans mati þrátt fyrir gagnrýnina sem það hafi fengið. Umfram allt sé verið að reyna að skapa sátt um þá mikilvægu uppbyggingu sem skipulagið kveði á um. Gert er ráð fyrir að Listaháskólinn, byggingarlistadeild Listasafns Reykjavíkur og hverfisráð íbúa tilnefni öll einn fulltrúa í samráðshópinn sem mun svo starfa með sérfræðingum frá skipulagssviði og byggingarfulltrúa. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×