Umfjöllun og viðtöl: KA 0-0 Stjarnan | Enn eitt jafnteflið hjá liðunum

Anton Ingi Leifsson skrifar
KA-menn hafa verið í fallbaráttu.
KA-menn hafa verið í fallbaráttu. VÍSIR/DANÍEL

KA og Stjarnan gerðu enn eitt jafnteflið í Pepsi Max deild karla í kvöld er liðin gerðu markalaust jafntefli norðan heiða.

Þetta var annar leikur liðanna á fimm dögum en í Garðabænum fyrr í vikunni gerðu liðin einnig jafntefli. Þá enduðu leikar 1-1 en ekkert mark var skorað í kvöld.

Leikurinn í kvöld var ágætis skemmtun þó að liðunum hafi ekki gengið svo vel að skapa sér mörg opin marktækifæri. Meira var um hálffæri.

KA fékk besta færi fyrri hálfleiks er Haraldur Björnsson varði frá Ásgeiri Sigurgeirssyni og staðan var markalaus er Guðmundur Ársæll Guðmundsson flautaði til hálfleiks.

Bæði lið gerðu tvöfalda skiptingu eftir klukkutímaleik og reyndu að hrista upp í sínum liðum en Hilmar Árni Halldórsson skaut m.a. í samskeytin.

Ekkert mark var skorað eins og áður segir og niðurstaðan markalaust jafntefli.

Afhverju varð niðurstaðan jafntefli?

Þegar litið er á heildarframmistöðu beggja liða er jafntefli væntanlega niðurstaða sem bæði lið geta unað við. Hvorugt lið stýrði leiknum algerlega eða átti sigurinn meira skilið en hitt.

Hverjir stóðu upp úr?

Það var fátt um fína drætti í báðum liðum. Brynjar Ingi Bjarnason átti þó virkilega góðan dag í miðri vörn KA og varnarleikur Stjörnunnar var öflugur eins og hann hefur verið í flestum leikjum sumarsins.

Hvað gekk illa?

Sendingar beggja liða á síðasta þriðjungnum eða í kringum vítateig andstæðinga var ekki upp á marga fiska.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eru á leið í smá verðskuldað frí en næst á dagskrá er landsleikjahlé. KA mætir Fylki 13. september en þremur dögum fyrr spilar Stjarnan við FH í Mjólkurbikarnum.

Rúnar Páll: Jafntefli telja of lítið en eru samt stig

„Ég er ekki sáttur. Ég hefði viljað fá þrjú stig. Fannst við fá hættuleg færi sem við hefðum átt að nýta betur, sérstaklega hjá Emil í fyrri hálfleik, opið mark og svo átti Hilmar ágætismöguleika á að setja hann í netið, en nei ég er ekki sáttur, við eigum að vinna þennan leik,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar.

„Það var kraftur í okkur og vinnusemi og dugnaður og allt það sem því fylgir. Mér fannst við spila ágætlega en við náðum ekki að klára þetta svona á síðasta þriðjungi. Við sköpuðum okkur ekki þessi opnu færi sem við hefðum viljað fá.“

Þetta er sjötta jafntefli Stjörnunnar í sumar í ellefu leikjum.

„Við þurfum að nýta færin okkar og erum búnir að vera að fá á okkur mörk í lok leikja, sem er ekki alveg nógu gott. En við erum bara á ágætissiglingu og höldum áfram, þessi jafntefli telja of lítið en eru samt stig. Í fyrra fengum við núll stig á móti KA en núna fengum við tvö, það er bæting frá því í fyrra,“ sagði Rúnar um jafnteflin og bætti við að þeir þyrftu að fara að breyta jafnteflum í sigra.

Arnar: Sanngjörn úrslit

,,Maður er aldrei sáttur með stigið á heimavelli, þú vilt alltaf meira en kannski ef ég horfi á leikinn aftur eru það sanngjörn úrslit, en auðvitað vill maður alltaf meira, tala nú ekki um í þeirri stöðu sem við erum í,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari KA í leikslok.

„Þrjú stig í dag hefði komið okkur í aðeins betri stöðu en það var margt jákvætt í leiknum, maður þarf að reyna að taka það með sér. Ég held að við höfum fengið bestu færin í byrjun leiks og komið okkur í mjög góða stöðu.“

„Við erum í rauninni verstir okkur sjálfum, það er svolítið blóðugt og oft þannig með lið sem eru í basli að það er stundum eins og þú sért í krumma. Það þurfum við að bæta fyrir næsta leik. Munurinn á okkur og liðunum fyrir ofan er að þeir eru að nýta sín færi sem þeir fá og þegar þeir komast í góðar stöður ná þeir að gera eitthvað úr henni.“

„Það þurfum við að bæta og koma okkur í enn betri stöður. Mér fannst við gera alveg nóg í dag til að skora allavega eitt mark, en það féll ekki með okkur í dag. Við erum mjög þéttir og það er góð holning á liðinu og erfitt að spila á móti okkur og það er jákvætt. Við þurfum að bæta okkur á síðasta þriðjung, vera aðeins agressívari og vilja þetta meira. Þegar menn eru of hræddir við að tapa heldur það stundum aftur af manni.‘‘

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira