Peningalyktin í landinu 15. apríl 2005 00:01 Stundum hefur verið sagt að öruggasta og fljótlegasta leiðin til að varpa ljósi á land og þjóð sé að ræða við gamalreyndan blaðamann um andrúmsloftið í heimalandi sínu. Þetta hafa íslenskir blaðamenn iðulega gert á ferðum sínum erlendis - og fengið skýr og heiðarleg svör frá starfsbræðrum sínum um einkenni og sérstöðu samfélagsins. Og þetta gera erlendir fjölmiðlamenn á leið sinni um Ísland, hvort heldur er sjónvarpsmenn eða blaðamenn. Þeir vita að þetta er stysta leiðin að þjóðarsálinni. Þessari einu og sönnu og raunverulegu. Góðir og vandaðir blaðamenn eru æfðir í því að fjalla um samfélag sitt eins og það er. Stjórnmálamenn tala um sama samfélagið eins og það ætti að vera. Eða ætti ekki að vera. Og fræðimenn vilja týnast í samanburðinum. Listamenn verða of orðmargir. Bissnessmenn of bjartsýnir. Prestarnir upphafnir. Sérvitringar of sérvitrir. Þetta eru misjafnar leiðir að sama marki. Misjöfn aðferð við þjóðfélagsgreiningu. En líklega er einfaldleikinn bestur ... að segja sem svo að samfélög séu bara. Þau eru það nefnilega. Og tiltölulega auðlesin. Það þarf ekkert að flækja lýsinguna. Hún getur allt eins rúmast í fyrirsögn eða stuttorðri umsögn um ástand og horfur. Ekkert umfram það. Si sona. Þetta er aðferð blaðamannsins. Einföld, hreinskiptin og passlega köld. Því er á þetta minnst að ég var beðinn um svona viðtal á dögunum. Og af því að sjónvarpsstöðin sem sóttist eftir orðum mínum var ágætlega stór og ágætlega amerísk - og af því hún ætlaði að gera svolítið metnaðarfulla greiningu á merkilegum lífsgæðaárangri þessarar grunsamlega fámennu þjóðar ... ja, þá fannst mér við hæfi að halla mér aftur í sófanum heima og hugsa málið. Í svo sem eins og eina kvöldstund. Fyrirvarinn var reyndar ágætur; tökuliðið yrði á landinu eftir tæpar tvær vikur - og þar af leiðandi hefði ég nægan tíma til að undirbúa mig enn frekar. Heilu dagana. Og eins gott því hvert orð mitt yrði dýrmætt, heilu setningarnar á við ímyndarauglýsingar Icelandair. Ímyndaði ég mér. Ég fengi svo sem eins og eina mínútu ... já, eina mínútu til að tjá mig, kannski minna. Og örugglega ekki meira. Og sumsé; hvað einkennir Ísland samtímans? Á einni mínútu. Þetta er náttúrlega stór spurning og svörin eflaust mörg ... en eftir því sem ég hef hugsað meira um málið hafa peningar komið oftar upp í hugann. Ekki endilega menning, já eða listir - og hreint ekki jöfnuður ... heldur peningar. Monnípeningar. Nefnilega það. Það er óskapleg peningalykt í landinu. Og mikið ofboðslega er hún megn. Sú var tíðin að íbúar heilu þorpanna á Íslandi gátu ekki hengt út þvottinn sinn fyrir fýlunni sem lagði af fiskverkun bæjarins. Og sú var líka tíðin að heilu stofnanirnar í miðborg Reykjavíkur þurftu að bregða límbandi yfir alla gluggafalsa af því að svo sterkan daun lagði af bræðslunni úti í Örfirisey að embættismenn voru við það að falla í ómegin á úrsvölum degi. Þetta voru ljótu tímarnir. Ekki ósvipaðir þeim þegar fína hverfið á Bráðræðisholtinu féll í verði þegar lýsislyktina lagði yfir uppgerðu húsin og nýju þakplöturnar voru við það að bráðna í stybbunni. Allt var þetta kallað peningalykt síns tíma. Og þótt lyktin a tarna hafi vissulega verið með því hvimleiðasta sem fyllir viðkvæm vitin var alltaf hægt að horfa á björtu hliðarnar; samfélagið var þó að græða á meðan lyktina lagði yfir bæinn. Sumsé saklaust. Peningalykt nýrrar aldar er annars konar. Hana leggur ekki inn um nefið heldur út um vitin. Það er eins og fólkið í landinu hafi um ekkert merkilegra að tala en vexti og ávöxtun, virka eignaraðild og verðbréf. Eins og þetta er nú skemmtilegt. Og hvort maður kaupi nú ekki örugglega í Símanum. Sú var tíðin að Íslendingar urðu af aurum apar. Og keyptu bréf í hæsta gálga genalógíunnar. Svo hrundu þeir með skruðningum. Án þess að hafa orð á því. Í þessum efnum sem öðrum eru Íslendingar nefnilega áhlaupsmenn. Og hjarðmenningin alger. Þetta á við um fótanuddtæki og fjármálaumsvif. Það er eins og sama víman fylli þjóðina einhverju óbilandi sjálfstrausti. Og af því boðleiðirnar eru svo óhugnanlega stuttar - og þjóðin svo fámenn að hún rúmast öll í einu og sama samkvæminu - er um að gera að allir geri eins. Það er þetta sem gerir þjóðina einsleita. Öll áhlaupin eru með sama stutta tilhlaupinu. Og nú er það sumsé kapphlaup eftir keisarans auði. Á Íslandi eru gefin út jafn mörg viðskiptablöð og dagblöðin eru. Viðskiptafréttir eru fyrir allnokkru farnar að skyggja á menningarfréttir - og fyrir margt löngu orðnar flottari en íþróttafréttir. Íslensk umræða snýst um þrjátíu prósenta part úr öðrum fimmtíu prósentum. Merkilegustu fréttirnar byrja flestar hverjar á yfirtöku. Og tilfærslu á fé. Öll þjóðfélagsumræðan er meira og minna farin að enda með orðinu group. Ég er ekki viss um að útlendingum finnist þetta spennandi samfélag. En svona er það samt. Útlenda sjónvarpstökuliðið kemur á þriðjudag. Mikið óskaplega held ég að svar mitt verði leiðinlegt. Já, heiðarlega leiðinlegt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Sigmundur Ernir Rúnarsson Mest lesið Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Athugasemdir við eignaumsýslu Landsbanka Íslands Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Stuðlar: neyðarástand í meðferðarkerfinu Böðvar Björnsson Skoðun Framúrskarandi þjónusta byggir upp traust á fyrirtækjum Ingibjörg Valdimarsdóttir Skoðun
Stundum hefur verið sagt að öruggasta og fljótlegasta leiðin til að varpa ljósi á land og þjóð sé að ræða við gamalreyndan blaðamann um andrúmsloftið í heimalandi sínu. Þetta hafa íslenskir blaðamenn iðulega gert á ferðum sínum erlendis - og fengið skýr og heiðarleg svör frá starfsbræðrum sínum um einkenni og sérstöðu samfélagsins. Og þetta gera erlendir fjölmiðlamenn á leið sinni um Ísland, hvort heldur er sjónvarpsmenn eða blaðamenn. Þeir vita að þetta er stysta leiðin að þjóðarsálinni. Þessari einu og sönnu og raunverulegu. Góðir og vandaðir blaðamenn eru æfðir í því að fjalla um samfélag sitt eins og það er. Stjórnmálamenn tala um sama samfélagið eins og það ætti að vera. Eða ætti ekki að vera. Og fræðimenn vilja týnast í samanburðinum. Listamenn verða of orðmargir. Bissnessmenn of bjartsýnir. Prestarnir upphafnir. Sérvitringar of sérvitrir. Þetta eru misjafnar leiðir að sama marki. Misjöfn aðferð við þjóðfélagsgreiningu. En líklega er einfaldleikinn bestur ... að segja sem svo að samfélög séu bara. Þau eru það nefnilega. Og tiltölulega auðlesin. Það þarf ekkert að flækja lýsinguna. Hún getur allt eins rúmast í fyrirsögn eða stuttorðri umsögn um ástand og horfur. Ekkert umfram það. Si sona. Þetta er aðferð blaðamannsins. Einföld, hreinskiptin og passlega köld. Því er á þetta minnst að ég var beðinn um svona viðtal á dögunum. Og af því að sjónvarpsstöðin sem sóttist eftir orðum mínum var ágætlega stór og ágætlega amerísk - og af því hún ætlaði að gera svolítið metnaðarfulla greiningu á merkilegum lífsgæðaárangri þessarar grunsamlega fámennu þjóðar ... ja, þá fannst mér við hæfi að halla mér aftur í sófanum heima og hugsa málið. Í svo sem eins og eina kvöldstund. Fyrirvarinn var reyndar ágætur; tökuliðið yrði á landinu eftir tæpar tvær vikur - og þar af leiðandi hefði ég nægan tíma til að undirbúa mig enn frekar. Heilu dagana. Og eins gott því hvert orð mitt yrði dýrmætt, heilu setningarnar á við ímyndarauglýsingar Icelandair. Ímyndaði ég mér. Ég fengi svo sem eins og eina mínútu ... já, eina mínútu til að tjá mig, kannski minna. Og örugglega ekki meira. Og sumsé; hvað einkennir Ísland samtímans? Á einni mínútu. Þetta er náttúrlega stór spurning og svörin eflaust mörg ... en eftir því sem ég hef hugsað meira um málið hafa peningar komið oftar upp í hugann. Ekki endilega menning, já eða listir - og hreint ekki jöfnuður ... heldur peningar. Monnípeningar. Nefnilega það. Það er óskapleg peningalykt í landinu. Og mikið ofboðslega er hún megn. Sú var tíðin að íbúar heilu þorpanna á Íslandi gátu ekki hengt út þvottinn sinn fyrir fýlunni sem lagði af fiskverkun bæjarins. Og sú var líka tíðin að heilu stofnanirnar í miðborg Reykjavíkur þurftu að bregða límbandi yfir alla gluggafalsa af því að svo sterkan daun lagði af bræðslunni úti í Örfirisey að embættismenn voru við það að falla í ómegin á úrsvölum degi. Þetta voru ljótu tímarnir. Ekki ósvipaðir þeim þegar fína hverfið á Bráðræðisholtinu féll í verði þegar lýsislyktina lagði yfir uppgerðu húsin og nýju þakplöturnar voru við það að bráðna í stybbunni. Allt var þetta kallað peningalykt síns tíma. Og þótt lyktin a tarna hafi vissulega verið með því hvimleiðasta sem fyllir viðkvæm vitin var alltaf hægt að horfa á björtu hliðarnar; samfélagið var þó að græða á meðan lyktina lagði yfir bæinn. Sumsé saklaust. Peningalykt nýrrar aldar er annars konar. Hana leggur ekki inn um nefið heldur út um vitin. Það er eins og fólkið í landinu hafi um ekkert merkilegra að tala en vexti og ávöxtun, virka eignaraðild og verðbréf. Eins og þetta er nú skemmtilegt. Og hvort maður kaupi nú ekki örugglega í Símanum. Sú var tíðin að Íslendingar urðu af aurum apar. Og keyptu bréf í hæsta gálga genalógíunnar. Svo hrundu þeir með skruðningum. Án þess að hafa orð á því. Í þessum efnum sem öðrum eru Íslendingar nefnilega áhlaupsmenn. Og hjarðmenningin alger. Þetta á við um fótanuddtæki og fjármálaumsvif. Það er eins og sama víman fylli þjóðina einhverju óbilandi sjálfstrausti. Og af því boðleiðirnar eru svo óhugnanlega stuttar - og þjóðin svo fámenn að hún rúmast öll í einu og sama samkvæminu - er um að gera að allir geri eins. Það er þetta sem gerir þjóðina einsleita. Öll áhlaupin eru með sama stutta tilhlaupinu. Og nú er það sumsé kapphlaup eftir keisarans auði. Á Íslandi eru gefin út jafn mörg viðskiptablöð og dagblöðin eru. Viðskiptafréttir eru fyrir allnokkru farnar að skyggja á menningarfréttir - og fyrir margt löngu orðnar flottari en íþróttafréttir. Íslensk umræða snýst um þrjátíu prósenta part úr öðrum fimmtíu prósentum. Merkilegustu fréttirnar byrja flestar hverjar á yfirtöku. Og tilfærslu á fé. Öll þjóðfélagsumræðan er meira og minna farin að enda með orðinu group. Ég er ekki viss um að útlendingum finnist þetta spennandi samfélag. En svona er það samt. Útlenda sjónvarpstökuliðið kemur á þriðjudag. Mikið óskaplega held ég að svar mitt verði leiðinlegt. Já, heiðarlega leiðinlegt.