Erlent

Talabani næsti forseti Íraks

Kúrdinn Jalal Talabani verður næsti forseti Íraks að sögn talsmanns hans. AP-fréttastofan hefur eftir talsmanninum að bandalag Sjíta hafi samþykkt Talabani sem forseta, gegn því að Sjítinn Ibrahim al-Jafaari verði næsti forsætisráðherra landsins. Þá hafi Kúrdar og Sjítar, sem samanlagt hlutu nærri þrjá fjórðu hluta atkvæða í nýafstöðnum kosningum, einnig náð samkomulagi um sjálfstæði Kúrda innan Íraks. Í gær var ákveðið að fyrsta lýðræðislega kjörna þjóðþing Íraks myndi koma saman í fyrsta sinn þann sextánda mars næstkomandi. Búist er við að fyrir þann tíma verði formlega tilkynnt um val á forseta og forsætisráðherra landsins.  Í nótt drápu uppreisnarmenn í Írak tólf þjóðvarðliða nærri borginni Bakúba. Uppreisnarmennirnir sátu fyrir þjóðvarðliðunum og skutu fimm þeirra til bana en sjö til viðbótar létust í þrem sprengjuárásum sem áttu sér stað samhliða skotárásunum. Að minnsta kosti tuttugu og sex manns særðust í árásinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×