Sport

Fimleikar um helgina

Það var mikið um dýrðir í Laugardalshöllinni um helgina þar sem bestu fimleikamenn landsins voru saman komnir til að etja kappi . Það má segja að þau Kristjana Sæunn Ólafsdóttir og Viktor Kristmannsson úr Gerplu hafi verið sigurvegarar helgarinnar, en þau sigruðu í fjölþrautinni í karla og kvennaflokki. Viktor sigraði með nokkrum yfirburðum í karlaflokki og var sigur hans sérstaklega sætur því hann var að glíma við veikindi sem helltust yfir hann tveimur dögum fyrir keppnina og sagði hann í samtali við Fréttablaðið í gær að árangur hans hafi komið sér nokkuð á óvart þegar litið er til heilsufars hans á keppnishelginni. "Mér gekk svona þokkalega á gólfinu og á boganum, en svo náði ég að keyra bara nokkuð fínt í hinum greinunum svo að ég er ansi sáttur þrátt fyrir smá hnökra. Ég var líka rúmfastur tveimur dögum fyrir keppni og missti röddina og átti erfitt með að anda, svo að ég get ekki kvartað yfir árangrinum í fjölþrautinni", sagði Viktor. Kristjana Sæunn Ólafsdóttir var einnig kampakát að lokinni keppni, þar sem hún sigraði eftir hörkukeppni við Sif Pálsdóttur úr Gróttu, en aðeins munaði hársbreidd á þeim stöllum í fyrsta og öðru sætinu. "Ég hefði geta gert aðeins betur í gólfæfingunum, en í heildina er ég mjög ánægð með sigurinn, því þetta var svo jafnt og spennandi", sagði Kristjana. Á laugardeginum tryggði sveit Stjörnunar úr Garðabæ sér sigur í keppni í hópfimleikum og hlutu 48,55 stig. Í öðru sæti varð sveit Gerplu með 45,85 stigog Björk varð í þriðja sæti með 44,95 stig



Fleiri fréttir

Sjá meira


×