Enski boltinn

Man. City að kaupa tví­tugan Úsbeka fyrir sex milljarða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Abdukodir Khusanov í leik með franska liðinu Lens en hann er færa sig yfir til Manchester og mun þar spila fyrir Pep Guardiola.
Abdukodir Khusanov í leik með franska liðinu Lens en hann er færa sig yfir til Manchester og mun þar spila fyrir Pep Guardiola. Getty/Jean Catuffe

Manchester City er að ganga frá kaupum á varnarmanninum Abdukodir Khusanov en enska félagið er sagt hafa náð samkomulag við Lens í Frakklandi.

Khusanov er tvítugur miðvörður frá Úsbekistan. Hann mun kosta City 34 milljónir punda eða um sex milljarða króna.

Fulltrúar hans eru í Manchester til að ganga frá persónulegum málum og hann ætti að fara í læknisskoðun um helgina.

Khusanov verður því fyrstu kaup City í janúarglugganum en það er búist við því að félagið kaupi fleiri leikmenn í þessum mánuði.

Það er líka þörf fyrir Khusanov í aðalliði City og því líklegt að hann komi strax inn.

Knattspyrnustjórinn Pep Guardiola hefur verið í vandræðum með miðverðina sína. Rúben Dias og John Stones eru báðir meiddir og þeir Manuel Akanji og Nathan Aké hafa líka verið frá vegna meiðsla.

Lens vildi halda leikmanninum út tímabilið en hefur samþykkt að láta hann fara strax.

Khusanov kom til Lens í júlí 2023 frá liði í Hvíta-Rússlandi. Lens borgaði bara hundrað þúsund evrur fyrir hann og er því að margfalda fjárfestinguna sína með þessari sölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×