Innlent

Aðskilnaður kristilegt baráttumál

Séra Hjörtur Magni Jóhannsson og Magnús Axelsson voru um helgina kjörnir í stjórn SARK, samtaka um aðskilnað ríkis og kirkju, en þeir eru fulltrúar Fríkirkjunnar. "Okkur var boðin þátttaka," segir Hjörtur, en hann hefur ekki starfað áður á vettvangi samtakanna. "Það er hins vegar rétt að þarna er fólk sem kemur úr mjög ólíkum áttum, en hefur það sem sameiginlegt markmið og stefnumál, að lýðræði og jafnræði ríki á þessu sviði þjóðlífsins, sem og öðrum." Hjörtur Magni segir ljóst að hér ríki ekki trúfélagafrelsi meðan milljarðar streymi frá ríkinu í eitt trúfélag. Þá segir hann aðgreiningu ríkis og kirkju vera kristilegt baráttumál. "Ég lít svo á að þegar þjóðkirkjustofnunin gengur ekki fram af réttlæti gagnvart öðrum trúfélögum beri kristnu fólki að mótmæla slíkri hegðun sem ókristilegri. Mér hefur virst að afstaða þjóðkirkjustofnunarinnar hafi einkennst af hroka til annarra kristinna trúfélaga sem hún virðir hvorki svars né viðlits," segir hann og bendir á að 60 til 65 prósent þjóðarinnar vilji aðgreiningu ríkis og kirkju. "Það hefur ítrekað komið fram í skoðanakönnunum og ljóst að þar er kristið fólk að tjá sig um."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×