Innlent

Deilt um fyrirkomulag RÚV

Í nýju frumvarpi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið er gert ráð fyrir því að það verði gert að sameignarfélagi. Fram hefur komið gagnrýni á þetta fyrirkomulag og hafa lögfræðingar bent á að Ríkisútvarpið, sem er í eigu eins aðila, fellur ekki undir hugtakið sameignarfélag í eignarréttarlegum og félagaréttarlegum skilningi. Ríkisútvarpið sé einfaldlega ríkisfyritæki en ekki sameignarfélag. Þorgerður Katrín hefur ekki dregið dul á það að vilji Sjálfstæðismanna stóð til þess að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. "Það var ekki vilji innan Framsóknarflokksins til þess en við komumst að þessari niðurstöðu. Ég er sannfærð um það að með þessu erum við að bæta og styrkja það rekstrarumhverfi sem Ríkisútvarpið býr við," segir Þorgerður Katrín. Spurð um fram komna gagnrýni á sameignarfélagsfyrirkomulagið segist hún skilja vel athugasemdir lögfræðinga. "Sérlög ganga hins vegar framar almennum lögum og ef skýrt er kveðið á um það að Ríkisútvarpið er sameignarfélag í eigu ríkisins þá gengur það að sjálfsögðu, við höfum dæmi um það. Ég vil líka benda á það að það má túlka þetta þannig að Ríkisútvarpið sé sameign íslensku þjóðarinnar," segir Þorgerður Katrín. Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í umræðum um Ríkisútvarpið á Alþingi 10. mars: "RÚV er eign ríkisins en ekki þjóðarinnar og það er mikill munur þar á. [...] Tal um það að menn eigi RÚV, að það sé eign þjóðarinnar, er út í hött því ef menn eiga eitthvað þá geta þeir gert eitthvað við það og þeir geta selt það eða veðsett það. Og það geta þeir ekki með Ríkisútvarpið." Þorgerður Katrín segir að með því að gera Ríkisútvarpið að sameignarfélagi sé verið að skipta yfir í rekstrarform sem er ekki ósvipað hlutafélagi. "Ríkisútvarpið fær með breytingunum tækifæri til að taka á ákveðnum rekstrarþáttum, sem oft er erfitt að taka á þegar stofnunin heyrir beint undir ríkið," segir hún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×