Erlent

Rödd frelsis ómar frá Írak

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, lýsti í gær mikilli ánægju sinni með framkvæmd kosninganna í Írak. Hann lofaði því að Bandaríkin myndu áfram reyna að tryggja öryggi almennra borgara í landinu. "Heimurinn heyrir nú rödd frelsis óma frá Írak," sagði Bush við blaðamenn í Hvíta húsinu eftir að kjörstöðum hafði verið lokað í Írak. Hann hrósaði þeim Írökum sem kusu þrátt fyrir að uppreisnarmenn hefðu hótað árásum á kjörstaði. Alls létust 44 í sjálfsmorðsárásum og sagði Bush að þeir kjósendur hefðu látist hafa fórnað sér fyrir mikilvægasta málstaðinn - frelsið. Líkt og á laugardaginn sagði Bush að kosningarnar myndu ekki binda enda á hryðjuverkaárásir öfgamanna. Bandaríkjamenn myndu hins vegar hjálpa Írökum til þess stöðvar árásirnar og koma á friði þar til hið nýja lýðræðisríki gæti sjálft borið ábyrgð á öryggi borgaranna. Edward Kennedy, öldungardeildarþingmaður demókrata, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann segir að Bush verði að líta lengra fram í tímann. Nauðsynlegt væri að sýna Írökum fram á það að Bandaríkjamenn hefðu ekki uppi önnur áform í landinu en að koma á lýðræði. Besta leiðin til þess væri að byrja strax á því að senda hluta hermannanna heim til Bandaríkjanna. Írösku kosningarnar: Kosið var stjórnlagaþing og kjörtímabilið er 11 mánuðir 275 þingmenn sitja á þinginu Þingið velur forseta og tvo varaforseta Forsetarnir velja forsætisráðherra og ríkisstjórn sem þingið þarf að samþykkja Þingið mun skrifa nýja stjórnarskrá Stjórnarskráin verður lögð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu í október Ef stjórnarskráin verður samþykkt verða þingkosningar í desember Ef stjórnarskránni verður hafnað verður aftur kosið stjórnlagaþing



Fleiri fréttir

Sjá meira


×