Sport

Væri til í að fá Wright-Phillips aftur

Shaun Wright-Phillips
Shaun Wright-Phillips NordicPhotos/GettyImages

Stuart Pearce segir að Manchester City væri meira en til í að fá vængmanninn Shaun Wright-Phillips aftur í sínar raðir frá Englandsmeisturum Chelsea, en segir jafnframt að líklega hafi City ekki efni á því. Pearce er hissa á að Phillips skuli ekki hafa verið valinn í enska landsliðið fyrir HM.

"Ég hef aldrei farið leynt með áhuga okkar á Shaun og við reyndum að fá hann að láni í janúar. Vissulega væri ég til í að fá hann aftur til Manchester, en ég held að peningar verði þar stór hindrun á vegi okkar. Félagið hafði sannarlega gott af þeim 21 milljón punda sem það fékk fyrir hann á sínum tíma, en hann er leikmaður Chelsea í dag og ekkert við því að gera," sagði Pearce, sem skilur ekki af hverju leikmaðurinn var ekki valinn í landsliðið.

"Shaun er leikmaður sem getur breytt gangi leiksins á augnabliki. Hann getur þotið fram hjá 3-4 leikmönnum í einu með tækni sinni og hraða og ég hélt að það væri mikill kostur fyrir hvaða lið sem er. Ég hef þó engar áhyggjur af Shaun, hann er sterkur á svellinu og á eftir að verða toppleikmaður í þessari deild í mörg ár," sagði Pearce.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×