Viðskipti innlent

Skortur jafngildir vaxtalækkun

Vextir ríkisvíxla lækkuðu um rúma 50 punkta frá síðasta útboði, en í gær, þriðjudag, voru boðnir út eins mánaðar víxlar í flokknum RIKV 06 0405. Alls bárust 19 gild tilboð upp á 16 milljarða króna, en aðeins var tekið tilboðum að upphæð fimm milljarðar.

Í vegvísi greiningardeildar Landsbankans segir að mikill skortur sé á skammtíma ríkisbréfum. Eftirpsurn eftir ríkisvíxlum er sögð hafa vaxið undanfarið en peningamarkaðssjóðir hafi skilað mikilli ávöxtun og vinsældir þeirra aukist. "Meðan Seðlabankinn berst við að toga upp skammtímavexti leiðir góð staða ríkissjóðs til hins gagnstæða. Tilgangur með útgáfu ríkisbréfa og ríkisvíxla er ekki aðeins að afla ríkinu lánsfjár heldur jafnframt að mynda grunn fyrir verðmyndun á skuldabréfamarkaði. Ef peningastefna ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans á að hafa áhrif á markaðsvexti þarf að vera nægjanlegt framboð ríkisbréfa," segir greiningardeildin og bendir á að samdráttur í framboði ríkisbréfa og -víxla jafngildi á vissan hátt markvissri vaxtalækkun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×