Viðskipti innlent

Engar óeðlilegar greiðslur

Á aðalfundi FL Group spurði Vilhjálmur Bjarnason hluthafi hvort þriggja milljarða greiðsla hefði verið millifærð af reikningum fyrirtækisins í lok júní í þágu annarra aðila en félagsins.

Greindi Jón S. Helgason, endurskoðandi frá KPMG Endurskoðun, að fyrirtækið hefði kannað stórar útborganir af bankareikningum FL Group á umræddu tímabili og ekki fundið neinar slíkar greiðslur á þessum tíma. FL Group stundar miklar fjárfestingar og allar þær útborganir sem nýttar voru til slíkra verkefna skiluðu sér aftur með eðlilegri ávöxtun innan skamms tíma.

Stjórnendur FL Group horfa til þess að 50-80 prósent af fjárfestingum félagsins verði með þeim hætti að félagið taki þátt með virkum þætti í stjórnun þeirra fyrirtækja sem fjárfest er í. Í máli Skarphéðins Bergs Steinarssonar, stjórnarformanns FL Group, kom fram að félagið horfi meðal annars til fjárfestinga í fjölmiðlum og fjarskiptum.

Skarphéðinn sagði að mikilvægt væri að geta útskýrt starfsemi fyrirtækisins. Það blasir við að FL Group, rétt eins og bankarnir og íslensk fjármálafyrirtæki í örum vexti á erlendum mörkuðum, þarf að auka gegnsæi í starfsemi sinni og hvers kyns upplýsingagjöf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×