Innlent

Byrjað að dæla úr Wilson Muuga í kvöld

Byrjað verður að dæla olíu úr flutningaskipinu Wilson Muuga í kvöld. Öllum dælubúnaði var komið fyrir í skipinu í dag, þar á meðal um 300 metra langri slöngu sem notuð verður til að koma olíu á tankbíla.

Skipið strandaði við Hvalsnes í síðustu viku þegar það var á leið frá Grundartanga til Múrmansk í Rússlandi. Ekki hefur verið hægt að dæla olíunni úr skipinu fyrr þar sem veður hefur hamlað því að hægt væri að koma dælubúnaði fyrir í skipinu. Í dag viðraði hins vegar vel til þess. ekki er vitað hve mikil olía var í skipinu en þó er vitað að í hliðartönkum skipsins eru um 60 tonn af svartolí og 4 tonn af gasolíu. Lengi vel var óttast að olía úr botntönkum skipsins hafi lekið út en nú bendir allt til þess svo hafi ekki verið.

Að sögn Kristjáns Geirssonar, fagstjóra hjá Umhverfisstofnun þá er búið að ganga fjörur og skoða svæðið úr lofti og hvergi mengun að sjá. Það litla sem vottar fyrir er líklega smit frá vél skipsins. Búið er að koma öllum dælubúnaði fyrir og er nú verið að kanna allar tengingar á rúmlega 300 metra slöngu sem notuð verður til að koma olíunni á tankbíla í landi. Dælingin sjálf mun svo taka um 12 til 20 klukkustundir. Fylgst verður náið með dælingunni af hálfu umhverfisstofnunar og þegar henni er lokið verður hafist handa við að rífa skipið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×