Erlent

Dauðadómurinn staðfestur

Áfrýjunardómstóll í Írak hefur staðfest dauðadóminn yfir Saddam Hussein, fyrrverandi forseta landsins, og verður hann að óbreyttu tekinn að lífi innan fjögurra vikna.

Hálfur annar mánuður er liðinn frá því dómstóll í Bagdad kvað upp dauðadóm yfir Hussein og tveimur samstarfsmönnum hans fyrir morð á 148 sjíum í bænum Dujail árið 1982. Dómnum var sjálfkrafa áfrýjað en nú liggur niðurstaða áfrýjunardómstólsins fyrir, dauðadómurinn stendur.

Forseti og varaforseti landsins verða svo að staðfesta þessa niðurstöðu en allt bendir samt til að innan þrjátíu daga verði þessi fyrrverandi einræðisherra látinn hanga í snörunni enda þótt enn sé réttað yfir honum vegna fjöldamorða á Kúrdum undir lok níunda áratugarins.. Írakar virðast skiptast mjög í tvö horn í afstöðu sinni til dauðadómsins. Súnníar segja að dómstóllinn sé handbendi pólitískra afla en sumum sjíum finnst Saddam hafa sloppið helst til billega.

Róstusamt hefur verið venju samkvæmt í Írak í dag en yfir þrjátíu manns létu lífið í hryðjuverkum í Bagdad. Í morgun dóu þrír bandarískir hermenn í sprengjuárásum skammt utan við höfuðborgina. Nú hafa fleiri hermenn fallið í Írak frá því að innrásin var þar gerð vorið 2003 og létu lífið í árásunum á tvíburaturnana í New York 11. september 2001, eða 2.973.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×