Kylfingurinn Tiger Woods er steinhissa á að hann skuli hafa verið tekinn framyfir tenniskappann Roger Federer sem íþróttamaður ársins að mati AP fréttastofunnar. Kjör AP, sem þykir með þeim virtari í íþróttaheiminum, var gert opinbert í gær.
Þetta var í fjórða skiptið sem Woods hreppir verðlaunin hjá AP en síðustu fjögur ár hefur hjólreiðagarpurinn Lance Armstrong orðið fyrir valinu. Í öðru sæti í ár var LaDainian Tomlinson, leikmaður San Diego í NFL-deildinni, en Roger Federer varð í þriðja sæti. Þeirri niðurröðun botnar Woods ekkert í.
"Það sem hann hefur gert í tennis á þessu ári tel ég vera miklu merkilegra og betra en það sem ég afrekaði á árinu," sagði Tiger, en hann og Federer er vel til vina eftir að hafa unnið saman í auglýsingum á vegum Nike.
"Hann hefur tapað hvað... fimm viðureignum á þremur árum, ekki satt? Það er ansi gott," sagði Woods og glotti. Federer hefur reyndar tapað aðeins fleiri leikjum en það, en þó ekki mikið fleirum. Á þessu ári tapaði hann fimm viðureignum, en vann hins vegar 92. Þar af bar hann sigur úr býtum á 12 af þeim mótum sem hann tók þátt í.