Golf

Gunn­laugur Árni í hóp fjöru­tíu bestu í heimi

Sindri Sverrisson skrifar
Gunnlaugur Árni Sveinsson hefur átt ævintýralegan vetur og keppti til að mynda í Bonallack-bikarnum fyrir úrvalslið Evrópu, í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í janúar.
Gunnlaugur Árni Sveinsson hefur átt ævintýralegan vetur og keppti til að mynda í Bonallack-bikarnum fyrir úrvalslið Evrópu, í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í janúar. Getty/David Cannon

Kylfingurinn Gunnlaugur Árni Sveinsson heldur áfram að gera það gott og er nú kominn upp í 38. sæti heimslista áhugamanna sem er langbesta staða sem Íslendingur hefur náð á þeim lista.

Áður en Gunnlaugur Árni fór að gera sig gildandi höfðu Gísli Sveinbergsson og Guðrún Brá Björgvinsdóttir náð bestum árangri Íslendinga á heimslista áhugakylfinga, með því að komast í 99. sæti.

Gunnlaugur Árni hefur skotist upp listann með frábærum árangri á sínum fyrsta vetri í bandaríska háskólagolfinu, með liði LSU Tigers frá Louisiana State háskólanum. 

Upp um 1.058 sæti á einu ári

Hann hækkar um tuttugu sæti á milli vikna á nýjasta listanum eftir að hafa hafnað í 3. sæti á afar sterku áhugamannamóti í Kaliforníu, Pauma Valley Invitational, en styrkleiki mótsins var 951 af 1.000 mögulegum sem er hæsta gildi í áhugamannamótum.

Lið Gunnlaugs Árna vann liðakeppnina á mótinu. Áður hefur Gunnlaugur Árni náð að vinna eitt mót í vetur, verða í 2. sæti á öðru móti og nú í 3. sæti á tveimur mótum. 

Alls hefur Gunnlaugur Árni hækkað um 1.058 sæti á heimslistanum á einu ári og hann er nú í 7. sæti á meðal bestu áhugakylfinga Evrópu en í 11. sæti yfir bestu háskólakylfingana, samkvæmt frétt golf.is, sem nýliði.


Tengdar fréttir

Gunnlaugur vann en Evrópa tapaði

Gunnlaugur Árni Sveinsson vann indverska undrabarnið Kartik Singh í einvígi á lokadegi Bonallack-bikarsins í golfi, í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í dag. Evrópa tapaði hins vegar keppninni, gegn úrvalsliði Asíu og Eyjaálfu, með aðeins eins vinnings mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×