Erlent

Gerald Ford látinn

Gerald Ford, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, lést í gærkvöld, 93 ára að aldri. Ford verður seint talinn í hópi tilþrifamestu forseta landsins enda var hann aldrei kjörinn af þjóð sinni í embættið.

Enginn Bandaríkjaforseti hefur náð hærri aldri en Gerald Ford en hann var 93 ára og 122 daga gamall þegar hann andaðist. Hann hafði átt við ýmis konar veikindi að stríða síðustu æviár sín en dánarorsök hans hefur hins vegar enn ekki verið gefin upp.

Valdatíð Geralds Fords var ekki ýkja löng en engu að síður allmerkileg, sérstaklega fyrir þá sök að hann komst í þetta valdamesta embætti heims án þess að hafa nokkru sinni fengið til þess umboð frá bandarísku þjóðinni. Hann varð varaforseti Richards Nixon árið 1973 þegar Spiro Agnew varð að segja af sér vegna áburðar um spillingu. Þegar svo Nixon flæktist sjálfur í eigin spillingarvef vegna Watergate-hneykslisins var leiðin greið fyrir Ford í forsetaembættið. Ólíkt forvera sínum var Ford hrósað fyrir hreinskilni, jákvæðni og heiðarleika og í forsetatíð viðurkenndu Bandaríkjamenn loks ósigur sinn í Víetnamstríðinu. Mörgum gramdist hins vegar þegar hann gaf Nixon upp sakir og hefur sá gerningur að líkindum átt stóran þátt í að hann tapaði forsetakosningunum 1976 fyrir demókratanum Jimmy Carter.

Á síðari árum bar lítið á Ford, meðal annars vegna veikinda, en eiginkona hans, Betty, hefur hins vegar uppskorið athygli og virðingu fyrir að koma á fót meðferðarstofnun sem við hana er kennd. Í yfirlýsingu sinni í gærkvöld kvaðst hún, ásamt allri fjölskyldunni, syrgja eiginmann sinn mjög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×