Innlent

Segja Björgólf standa á bak við kaupin á West Ham

Hópur sem Eggert Magnússon, formaður KSÍ, fer fyrir og vill eignast enska úrvalsdeildarfélagið West Ham hefur fengið aðgang að bókhaldi félagsins eftir því sem fram kemur á vef breska blaðsins Daily Telegraph. Þá kemur fram á vef dagblaðsins Independent að talið sé að Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Landsbankans, standi á bak við kaupin.

Eggert og félagar gagnrýndu í síðustu viku að þeir hefðu ekki fengið aðgang að bókhaldinu en heimildarmenn Telegraph segja að forráðamenn West Ham hafi nú fallist á að veita þeim aðgang að því. Þá segir á vef Independent að Eggert og félagar hafi í gær fundað með forráðamönnum West Ham þar sem tilboð hópsins upp á 75 milljónir punda var ítrekað og til viðbótar tilboð um yfirtöku á skuldum félagsins sem nema 22,5 milljónum punda.

Segir enn fremur í grein Independent að hann hafi greint West Ham frá því hver standi á bak við kaupin en talið sé að það sé Björgólfur Guðmundsson. Þar kemur einnig fram að samsetning hópsins hafi breyst og hann sé nú meira íslensk-skandinavískur.

Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Björgólfs segir enga skuldbindingu liggja fyrir af hálfu Björgólfs Guðmundssonar í málinu. Hvort síðan Eggert Magnússon kunni að treysta á aðkomu hans, sé annað mál og í raun aðeins ályktanir breskra blaðamanna.

Eggert og félagar hafa samkvæmt breskum miðlum barist um West Ham við hóp sem ensk-íranski kaupsýslumaðurinn Kia Joorabchian fer fyrir en að baki honum stendur íraelskur fasteignajöfur. Segir á vef Independent að nokkrar vikur gæti tekið að fá niðurstöðu í málið og ef tilboði Eggerts og félaga verði tekið verði yfirtakan á félaginu þó varla að veruleika fyrir jól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×