Innlent

Rannsaka sjö kynferðisbrotamál

Lögreglan á Akureyri rannsakar nú sjö mál sem snúa að meintum kynferðisafbrotum. Óvíst er í sumum tilfellum hvort rannsóknin leiðir til sakamála en málin eru ólík og tengjast ekki innbyrðis.

Við sögðum frá því fyrir helgi að maður var handtekinn á Akureyri í síðustu viku á vinnustað sínum vegna gruns um að hann hefði ítrekað misnotað tíu ára telpu. Honum hefur verið sagt upp störfum en hann vann hjá þjónustufyrirtæki á Akureyri. Rannsókn á því máli líkur fyrir mánaðarmót. Daníel Snorrason, hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri, segir málið svo verða sent ríkissaksóknara sem gefur út ákæru. Játning mannsins liggur fyrir en samkvæmt heimildum fréttastofu er stúlkan systurdóttir fyrrum ástkonu mannsins.

Spurður hve mörg kynferðisbrotamál í umdæminu lögreglan á Akureyri rannsaki þessa dagana segir Daníel að þau séu sex til sjö talsins. Sum séu þess eðlis að rannsóknir taki langan tíma. Óvíst er hvort sakfellt verður í öllum þessum málum og tengjast þau ekki innbyrðis að sögn yfirmanns rannsóknardeildar á Akureyri. Lögreglan segir ástandið þannig að málafjöldinn nú sé í raun ekki umfram venju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×