Innlent

Bandarískt spínat innkallað vegna hugsanlegrar bakteríu

MYND/Hari

Íslenskir innflytjendur og söluaðilar á spínati hafa þegar innkallað allt bandarískt spínat og grænmetisblöndur sem innihalda slíkt spínat eftir að í ljós kom að fólk í Bandaríkjunum hefur veikst af völdum spínats sem mengað er af ecoli-bakteríunni.

Bandarískt spínat er einnig í umbúðum frá Hollt og gott, merkt Spínat, Veislusalat, Kryddsalat. Matvælaeftirlit Umhverfissviðs Reykjavíkur hvetur almenning, mötuneyti og veitingahús sem eiga þessar vörur til að skila þeim til dreifingaraðila. Fólki er enn fremur ráðlagt að borða ekki ósoðið amerískt spínat eða grænmetisblöndur með slíku spínati á meðan rannsókn stendur yfir.

Innköllun á bandarísku spínati hér á landi er varúðarráðstöfun því ekki er enn vitað hvort varan sem hér er til sölu sé menguð af þessari bakteríu. Matvælaeftirlit Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar hefur tekið sýni til rannsóknar og munu niðurstöður liggja fyrir á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×