Innlent

Boðið upp á sérfræðileiðsögn annan hvern þriðjudag í vetur

Mynd/Hörður
Þjóðminjasafnið mun bjóða upp á sérfræðileiðsögn í hádeginu annan hvern þriðjudag í vetur. Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á leiðsögn með þessum hætti á safninu.

Sérfræðingar safnsins munu leiða leiðsögnina. Á morgun verður fyrsta leiðsögn vetrarins klukkan tíu mínútur yfir tólf og er það Lilja Árnadóttir sýningarhöfundur og fagstjóri Þjóðminjasafnsins sem mun leiða fólk um sýninguna; Með silfurbjarta nál. Sýningin var opnuð um síðustu helgi í Bogasalnum en á henni eru veggtjöld og reglar fyrri alda til sýnis. Sýningin byggist á niðurstöðum Elsu E. Guðjónsson textíl- og búningafræðings. Elsa er einn mesti sérfræðingur landsins á þessu sviði en hún hefur fengist við rannsóknir á refilsaum og textíl af ýmsum gerðum í fjölda ára.

Auk sýningarinnar eru að venju fleiri sýningar í gangi á safninu. Í myndasal safnsins stendur yfir sýning á ljósmyndum sem teknar voru hér á landi árið 1938 þegar þjóðverjinn Alfred Ehrhardt og englendingurinn Mark Watson ferðuðust um landið og tóku myndir af bændum og búaliði, náttúrunni og undrum hennar. Ljósmyndasýningunni lýkur næstkomandi sunnudag. Í vetur verður boðið upp á almenna leiðsögn á íslensku um grunnsýningu Þjóminjasafnsins alla sunnudaga klukkan tvö en ensk leiðsögn er klukkan tvö á laugardögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×